föstudagur, desember 28, 2007

annáll 2007

ég ákvað að smella smá annál inn á bloggið yfir það sem hefur á daga okkar drifið árið 2007. Hef örugglega gleymt einhverju mikilvægu, bæti því þá bara inn seinna :)


Janúar, einkenndist af barnastússi líkt og síðustu mánuðir þar á undan gerðu. Sá gleðilegi atburður gerðist að svefnnóttum fjölgaði og svefnlausum nóttum fækkaði, húsfrúnni til mikillar gleði. Þökkum Hebu höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnunar kvinnu það svo kærlega. Við Gestur fórum jú á þorrablót líkt og við höfum gert síðustu ár.
Febrúar, var tilbreytingarlítill hjá okkur. Unnur Lilja byrjaði í ungbarnasundi á Reykjalundi vorum svo heppin að Máni og foreldrar hans voru í sama hóp og við. Bjargey og Jón eignuðust prins sem síðar fékk nafnið Ólafur Oddur. Hestarnir teknir á hús.
Mars, Gestur hélt venju samkvæmt upp á afmæli sitt með heljarinnar purusteikarveislu. Pilturinn varð 35 ára (miklu eldri en ég sko). Ég tók að mér að halda fræðsluerindi um aðlögun að breyttu aðstæðum fyrir vefjagigtarsjúklinga á námskeiði hjá GÍ. Það þýddi að ég þurfti að ræsa heilabúið, dusta rykið af power point vitneskjunni, lesa helling af greinum um streitu, aðlögun iðju o.fl. gekk allt stórslysalaust.
Apríl, páskar og allt sem þeim tilheyrir. Alma Dóra var fermd á skírdag. Byrjaði að vinna aftur eftir fæðingarorlofið, ó mæ ó mæ hvað það var gott að komast í vinnurútínuna aftur. Ég er örugglega ekki gott efni í heimavinnandi húsmóður. Árleg sviðaveisla var haldin síðasta vetrardag með tilheyrandi stússi.
Maí, sauðburður og fjölskyldustundir eru lykilorð maímánaðar. Sif og Rikki eignuðust prinsessu 31. maí, sama dag og Kristjana á afmæli. Kristjönu fannst það liggja í augum uppi að prinsessan fengi nafnið Kristjana, ekki varð henni að ósk sinni. Stúlkan fékk nafnið Auður Salka.
Júní, Guðrún Sara fermd við hátíðlega athöfn í Kolbeinsstaðakirkju. Við eyddum tíma í sumarbústaðnum í Grímsnesinu.
Júlí, sumarfrí!!!!!!!! Fórum í sumarbústaðinn í Grímsnesinu. 2ja daga ferðalag með ma og pa + Helgu, Ásbirni og Guðrúnu Söru um Suðurland. Fórum svo í 4 daga ferðalag með ma og pa um suðurhluta Vestfjarða og með Baldri yfir Breiðafjörð. Ekki vafðist neitt fyrir Unni Lilju að sofa í tjaldi, né að ferðast með okkur. Eins og mamman að á meðan hún fær að borða og sofa nokkuð reglulega er hún kát 
Ágúst, fórum í brúðkaup til Margrétar og Brandar í Fáskrúðarbakkakirkju og yndisleg veisla í Breiðabliki, takk takk fyrir okkur. Dóra tengdamamma flutti til okkar og verður hjá okkur þar til Sif og Rikki eru búin að byggja í Lambaselinu. Þau sumsé búa í íbúð Dóru þangað til. Já og ekki má gleyma því að Grímur Thomsen flutti til okkar líka í tímabundið fóstur þar til Lambaselið er tilbúið. Ekki er nú hægt að segja að þeim Unni Lilju semji vel. 18. ágúst flugum við til Frankfurt tókum þar bíl á leigu og brunuðum um Suður Þýskaland og Tékkland. Áttum ógleymanlega viku í Prag hjá Leif og Marký. Sjá færslu síðan í sept um það ferðalag. Smelltum íbúðinni okkar á sölu svona upp á grínið 
September, að sjálfsögðu réttir. Fór ríðandi í réttirnar með Kristjönu, Arnari og Guðrúnu Söru og að sjálfsögðu heim aftur. Hjálpi mér hamingjan hef held ég svei mér þá aldrei fengið slíkar harðsperrur eftir hestatúr. Hef ekki farið neitt að ráði á hestbak síðan í apríl 2005 svo það var ekki von á góðu og enga langa túra síðan sumarið 2004. Réttarveðrið var ekki hið besta, snjókoma, slydda og jú gott veður inn á milli en slagveðursrigning þegar við fórum á hestunum heim..... brrrrrrrrrrrrrrr.... það var skítkalt. Reuma ráðstefnan margumrædda haldinn á Grand Hótel og þar með lauk miklum fundarsetum við undirbúning. Skrifuðum undir og gengum frá kaupsamningi á Fljótaseli 33 og flytjum þangað vonandi í janúarlok 2008.
Október, hápunktur mánaðarins var 1 árs afmæli Unnar Lilju og að hún byrjaði að ganga 13. okt (man bara dagsetninguna nákvæmlega því þann dag héldum við upp á afmælið hennar). Grím greyinu hent út í byrjun mánaðarins eftir að hann hafði x2 bitið Unni Lilju og klórað hana nokkrum sinnum. Já hann Grímur er nefnilega köttur sem er ekki mjög hrifin af börnum og allra síst þeim sem hafa áhuga á að skoða hann nákvæmlega eins og fröken Unnur Lilja. Auður Salka fékk nafnið sitt skráð í kirkjubækur Seljakirkju og fór í sína fyrstu utanlandsferð. Ekki má gleyma því að Unnur Lilja byrjaði hjá Guðmundu dagmömmu, aðlögunin gekk vel og þar með byrjaði líka endalaust pestastúss.
Nóvember, seldum íbúðina í Engihjallanum hjúkkkkkkkk. Var komin með nett streitueinkenni yfir því að vera ekki búin að selja og ástandið á fasteignamarkaðnum ekki mjög jákvætt.
Desember, héldum okkar árlega aðventuboð 2. des og þann dag var 1 ár frá því að Unnur Lilja var skírð í Seljakirkju. Ættingjar og vinir komu í huggulegt boð hjá okkur. Gestur fór í tæpa viku til Prag í bissnesferð og við Unnur Lilja veikar heima á meðan. Eiginlega má segja að nóvember og desember hafi einkennst af endalausum pestum og veikindum hjá okkur Unni Lilju. Er búin að afþakka allar fleiri kvefpestir og vesen takk fyrir. Já og er líka búin að afþakka þetta endalausa rok og rigningu sem búið er að dynja yfir okkur endalaust. Má ég nú frekar biðja um snjó og huggulegheit??? Jólin komu samkvæmt venju og voru yndisleg eins og alltaf og ekki spillti fyrir að Jóhanna og Ari Grétar eignuðust prinsessu á aðfangadag, eitt það allra fallegasta barn sem ég hef séð. Ekki má nú gleyma þessum æðislega jólasnjó sem við erum búin að hafa síðustu daga.

Efnisorð:

þriðjudagur, desember 25, 2007

Gleðilega jólahátíð

Í gær aðfangadag fengu Jóhanna og Ari Grétar þá allra yndislegustu jólagjöf sem nokkur getur fengið. Þau eignuðust litla prinsessu :) ég hlakka mikið til að kíkja á þau á morgun. Enn og aftur til hamingju.

Aðfangadagur var rólegur og fínn eins og ávallt hjá okkur. Við litla familían fórum í messu kl 18 í Seljakirkju eins og við erum vön, síðan heim að græja til matinn. Dóra tengdó og Svana komu og borðuðu með okkur. Unnur Lilja var orðin svo þreytt að hún hékk varla vakandi við að opna jólagjafirnar sínar, kláraði að opna nú í morgun. Svaf svo til hálf tíu í morgun sem er bara æði, allir fengu að sofa út!!!!!! yndi
Framundan er síðan jólaboð í eftirmiðdaginn hjá tengdó og á morgun á skaganum hjá Bjössa og Bylgju..... nóg að gera, nóg að borða, nóg að drekka, nóg af öllu........

Gleðileg jól

Efnisorð: ,

föstudagur, desember 21, 2007

korter í jól

korter í jól :) og allt klárt eins og vera ber *hóst* *hóst* er amk búin að pakka inn öllum gjöfum og setja jólakortin í póst, hef vonandi ekki gleymt neinum í veikindaþoku okkar mæðgna síðustu vikurnar. Við erum búnar að vera veikar til skiptis í rúman mánuð, alveg hreint komin með nóg af því. Endaði með að Unnur Lilja var með eyrnabólgu, hálsbólgu og lugnasýkingu, bara vesen. Hún er sem betur fer orðin spræk en ég er með hor og slef ......... við einmitt urðum að fresta ferðinni á Hótel Rangá þar til 28. des. vegna veikinda Unnar.
Við fórum á Frostrósatónleikana um síðustu helgi svo sem ekki í frásögur færandi nema hvað hljóðkerfið var gjörsamlega handónýtt. Við vorum sammála um að tónleikarnir sem við fórum á 2005 voru mun betri. Bestu og hátíðlegustu tónleikarnir voru samt sem áður þegar þeir voru í Grafarvogskirkju.
hummm og ha ... veit ekki hvað ég á að blogga meira

miðvikudagur, desember 12, 2007

fréttaskeyti

jæja hvað hefur nú gerst markvert síðan húsfrúin settist við skriftir síðast??
aðventuboðið heppnaðist alveg ágætlega. Við hjúin fórum á jólahlaðborð með GÍ um síðustu helgi, mæli með því. Mjög góður matur og frábært show :) Unnur Lilja fékk að gista í sveitinni hjá ömmu, afa og Kristjönu í fyrsta skiptið ein. Gekk ljómandi vel. Gestur fór síðan til Prag á sunnudagsmorgunin og mikið held ég að lítil stúlka verði glöð þegar pabbinn hennar kemur heim á morgun fimmtudag. Við mæðgur drusluðumst svo heim á sunnudagskvöldið þrátt fyrir að ég nennti því engan veginn. Hefði betur bara verið áfram fyrir vestan, því ég er búin að fara einn dag í vinnuna í þessari viku og sýnist á öllu að ég hafi tvo vinnudaga af í þessari viku þ.e. stefni á að mæta á föstudaginn. Unnur Lilja er búin líkt og stór hluti Íslendinga að vera með hósta, hor og hita. Við Gestur erum svo sem líka búin að fá okkar skammt af þessari óþverapest. Ég er t.d. búin að vinna eina heila vinnuviku síðan 2.nóv og ó mæ god hvað það hljómar ekki vel........ Við eigum svo bókað á jólahlaðborð og gistingu á Hótel Rangá á föstudagskvöld, voandi að ungfrúin verði orðin eitthvað hressari. Fór með hana til doksa í dag og komum við heim með púst og sýklalyf :) sem betur fór dreif ég mig með hana því Gestur fór með hana til barnalæknis í síðustu viku og sá læknir hafði meiri áhuga á offitu Gests heldur en að skoða barnið.
Jólin nálgast óðfluga eins og á hverju ári sem er bara æði nema hvað ég hef aldrei á ævinni verið svona sein með allt, ekki búin að kaupa jólagjafir nema að litlu leyti ekki búa til jólakort o.s.frv. En þetta reddast allt :)

Efnisorð: , ,

laugardagur, desember 01, 2007

margt að gerast

Margt að gerast :) við vorum að klára undirbúning fyrir aðventuboðið okkar sem er á morgun 1 sunnudag í aðventu. Við erum að skapa þá hefð innan fjölskyldna okkar að bjóða þeim heim i góðgæti. Á morgun eigum við sumsé von á 35 gestum :) Næsta laugardagskvöld skundum við á jólahlaðborð í Súlnasal með starfsfólki Gigtarfélagsins, verður án efa glaumur og gleði þar. Sunnudagsmorgunin ja eða bara hreinlega um nóttina þarf Gestur síðan að vera mættur í Leifsstöð kl 5. Hann og Bjössi eru á leið til Leifs og Marký í Prag. Verður hroðaleg karlrembudrembuferð, kannski ágætt að vera bara heima á Íslandinu góða með Unni Lilju :) Helgina þar á eftir stormum við Gestur á Hótel Rangá til að borða smá á jólahlaðborði og eiga síðan huggulega stund. Komum heim eldspræk á laugardegi, á sunnudeginum ætlum við á tónleika með Frostrósum. Úfffff síðan eru nú bara komin jól helgina þar á eftir. Já mikið að gera þessa vikurnar og ekki minnkar það í janúar!!!! þá tekur við misskemmtileg vinna við að pakka niður búslóðinni okkar (er svosem aðeins byrjuð á að pakka) og flytja hana í nýtt húsnæði :) vonandi verður allt komið í ró og spekt í febrúar............