þriðjudagur, ágúst 26, 2008

stikkorð

í stikkorðum sl. vikur...
nú er búið að slá upp fyrir sökklum á Nátthaga og áætlað að steypa á laugardaginn næsta... spennó!!! styttist því að hægt verði að flytja húsið vestur.
við vorum afleysingar bændur um síðustu helgi, mamma, pabbi, Kristjana, Sigfús og börn skelltu sér á Landbúnaðarsýninguna á Hellu og skemmtu sér konunglega. Gummi Bjarni var með okkur í sveitinni sem sérlegur vinnumaður og til að passa Unni Lilju.
Unnur Lilja er búin að vera rúma viku í leikskóla og líkar vel amk er ekki grátur og gnístran tanna á morgnana þegar hún fer. En það er afskaplega mikið þreytt ung stúlka sem er sótt í leikskólann í eftirmiðdaginn og ræður engan vegin við sig heima á kvöldinn. Veit ekki alveg hvernig hún á að haga sér vegna þreytu :) það líður jú örugglega hjá eins og allt annað. Við erum strax farin að taka eftir nýjum orðum hjá henni eftir að hún byrjaði í leikskólanum
s.s.
kaggar = krakkar
eppi = epli
nannani = banani

annars fer orðaforði hennar ekki hratt vaxandi, ætlar greinilega að æfa sig aðeins í huganum áður en hún opinberar kunnáttu sína eins apar hún ekki upp orð eftir okkur líkt og mörg börn gera. Afskaplega sjálfstæð persóna :)

Efnisorð: ,

miðvikudagur, ágúst 13, 2008

smá uppdeit

Nú er búið að grafa þessa fínu holu á Nátthaga til að hægt sé að útbúa undirstöður fyrir sumarhúsið okkar og vonast ég til að slíkt verði hægt um helgina. Annars gengur lífið sinn vanagang, Unnur Lilja byrjar í leikskóla á föstudaginn nk. Í gærkvöldi skutumst við að Hreðavatni og heimsóttum Elísu, Þórð og Snæbjörn og Ellu Elísumömmu. Voðahuggulegt að vera þarna þ.e. umhverfið er æðislegt en bústaðurinn orðinn dáldið þreyttur. Var svo að bóka flug til Barcelona fyrir okkur Gest í október..... huggó.

Efnisorð: ,

föstudagur, ágúst 01, 2008

sumarfrí

Við erum komin heim eftir tæpa viku í útilegu. Í stuttu máli sagt þá var þetta alveg ljómandi, sól og blíða alla daga.
Í löngu máli þá var ferðin okkar þannig:
Föstudagur 25. júlí: lagt af stað úr bænum frekar seint og því komið seint í náttstað í Lauftúni í Skagafirði. Hittum þar Hrafnhildi, Axel og Eðvarð. Lítið annað gert en að opna tjaldvagninn og koma öllu fyrir og svo auðvitað spjalla smá.
Laugardagur 26. júlí: Sváfum afskaplega vel um nóttina þrátt fyrir smá rigningu um nóttina og síðan rok. Keyrðum út Kjálka og síðan til baka í Varmahlíð og svo aftur af stað upp að Merkigili. Áætlað var að fara bæði að Merkigili og að Ábæjarkirkju. Mig þ.e. Guðbjörgu skorti kjark til að fara yfir ótraustvekjandi brú svo við fórum ekki að Ábæjarkirkju og sáum bara Merkigilsbæinn yfir gilið. Gönguhetjurnar okkar Hrafnhildur, Axel og Eðvarð gengu fram að Ábæjarkirkju sem reyndist vera heldur lengra en þau héldu. En öll komu þau til baka og kvöldið endaði með góðum grillmat og spjalli. Á meðan þau fóru í gönguferð þá fórum við í heimsókn til Steinku og Sæmundar í bústað í Varmahlíð. Unnur Lilja fór í heitapottin með Björk Dögun og Emilíu Önnu og skemmti sér konunglega meðan við hin sátum og spjölluðum.
Sunnudagur 27. júlí: Tjaldvagninum pakkað saman eftir tvær nætur í Lauftúni. Hrafnhildur, Axel og Eðvarð héldu af stað að Finnastöðum til foreldra Axels en við héldum í átt að Sauðárkrók og hittum þar mömmu, pabba, Helgu, Ásbjörn og Guðrúnu Söru. Fórum með þeim út í Glerhallavík og að Grettislaug, fínn göngutúr í fjörunni og nesti á eftir. Gæti ekki verið betra. Gistum síðan við sumarbústaðin þar sem Helga og co voru. Enn ein grillveislan :) Unnur Lilja var mjög glöð að fá að hreyfa sig og fara í fótbolta við Guðrúnu Söru og Ásbjörn. Annars er hún afskaplega góð og auðvelt að ferðast með henni.
Mánudagur 28. júlí: Keyrðum fyrir Tröllaskaga. Stoppuðum á Hofsósi og skoðuðum Vesturfarasetrið. Ótrúlegar hörmungar sem fólk þurfti að ganga í gegnum bæði hér á Íslandi og líka þeir sem ákváðu að flytja til Vesturheims. Næsta stopp var á Siglufirði, fallegur bær með snjóflóðavarnir upp um öll fjöll. Skil vel að íbúar Siglufjarðar vilji fá göng yfir til Ólafsfjarðar, bætir samgöngur heilan helling. Fórum í krúttlegt gallerý þar sem fjórar heldri konur mála á postulín, bræða gler ofl og selja. Þarf vart að taka fram að ég fór heim með salt og piparbauka með mér. Vorum þarna í bongóblíðu og því erfitt að setjast inn í bíl og halda áfram. Keyrðum yfir Lágheiði að Ólafsfirði, þar var nú bara keyrt í gegn þar sem við höfðum öll komið þangað. Við tjölduðum á Dalvík ásamt ma og pa en Helga og co héldu áfram i sumarbústaðinn i Skagafirði. Voða næs og rólegt á tjaldstæðinu. Unnur Lilja fór á kostum, húsbíllinn mátti ekki opnast þá var hún kom inn í hann, í bílstjórasætið, lagði öryggisbeltið yfir öxlina og hélt á rúntinn.... algjör snilld.
Þriðjudagur 29. júlí: Fórum inn á Akureyri í verslunarleiðangur og að sjálfsögðu var farið í Bakaríið við Brúnna og snætt :) Fórum svo í Jólagarðinn í Eyjafirði, mér finnst alltaf svo gaman að koma þar. Unnur Lilja var eins og óður apaköttur þar inni svo margt að sjá og skoða sem ekki má snerta. Áfram var haldið við fórum í Laufás og skoðuðum þar en ma og pa fóru aftur inn á Akureyri. Hittumst svo á Illugastöðum í bústað hjá Lillu, Jonna, Raggý og Bóa þar sem okkur var boðið í grill. Ljúffengur matur og góðir drykkir voru í boði þar. Gistum síðan þar á gesta tjaldstæði. Besti tjaldstaðurinn í ferðinni, því við vorum alveg upp við há tré sem skýldu okkur fyrir morgunsólinni svo það varð aldrei óbærilega heitt eins og hina morgnana.
Miðvikudagur 30. júlí: Fórum í safnasafnið í Eyjafirði, alveg magnað að koma þangað. Mæli með að fólk stoppi þar og skoði. Fórum svo á Greifann í síðbúinn hádegisverð og röltum svo um í göngugötunni og skoðuðum í búðir. Á Akureyri skyldust leiðir ma og pa stefndu á Smámunasafnið en við brunuðum í Varmahlíð til Steinku og fjölsk. þar var mikið líf og fjör eins og búast má við þegar 7 krakkar eru í sama húsinu. Áttum þar góða kvöldstund og gistum þar í garðinum.
Fimmtudagur 31. júlí: Héldum heim á leið yfir Kjöl. Gestur hafði aldrei farið þar yfir áður en ég og mín eðal Toyota höfðum farið amk x3 yfir. Komum við á Hveravöllum og fengum okkur nesti. Vonuðumst til að hitta Ásgeir þar, en hann er í hálendisgæslu ásamt fleirum úr Björgunarsveitinni Brák. Björgunarsveitin var fjarverandi svo við misstum af þeim en mættum þeim síðan við Bláfell á fljúgandi ferð. Vegurinn yfir Kjöl er hrikalega harður og frekar eins og þvottabretti en eitthvað annað, þvílík sæla að komast á malbikið. Komum við í Oddsholti og ætluðum að hitta á Ömmu Dóru þar en þar var enginn svo við héldum bara áfram.

Mikið gott að komast heim og takast á við heilt fjall af óhreinum þvotti eftir ferðalagið. Vinnan byrjar svo aftur á þriðjudaginn svo það er eins gott að nota þennan síðasta dag vel!!!!!
Búin að setja inn myndir úr fríinu á myndasíðuna okkar.

Efnisorð: ,