saga útlaga
þá er sumarfríið á enda að þessu sinni og ég búin að vinna alveg heila 4 daga (sem er frekar erfitt sko). Síðasti vinnudagur var 10. júlí og þann dag var brunað í Munaðarnes þar sem fjölskylda Gests ákvað að dvelja þá helgina. Við fengum þvílíka bongóblíðu að það hálfa hefði verið nóg. Ljómandi leikvöllur var á svæðinu sem ungfrúin hafði mikið gaman af. Þaðan var farið í Nátthaga, Gestur þurfti að fara til Reykjavikur en við Unnur vorum þar að undirbúa næsta ferðalag sem var á Suðurlandið með mömmu og pabba. Á miðvikudegi var haldið af stað og dvöldum við fyrstu nóttina á Þingvöllum. Frá Þingvöllum var farið áfram suður á bóginn, Laugarvatnshellir skoðaður merkilegt að þar skuli hafa verið búið á síðustu öld. Áfram var haldið og keyrðum hverfishringinn framhjá Berjanesi, þar sem afi og amma Gests bjuggu. Þaðan fórum við í Vík í Mýrdal þar sem við vorum í 2 nætur. Skoðuðum það fjöruna, dáðumst af þeim sem keyrðu upp á fjallið fyrir ofan Vík, án efa dásamlegt útsýni en ég er ekki viss um að ég hefði komist heil upp og hvað þá niður aftur og þó amk hefði ég getað labbað niður. Fórum inn í Þakgil og þangað langar mig aftur og þá með tjaldvagninn með og dveljast þar í nokkra dag. Hrikalega fallegt þar. Komum við á Akri en þangað hef ég aldrei komið, gott að heimasækja þau hjón Önnu og Árna. Ætluðum síðan upp Landsveit og niður Þjórsárdal, lögðum afstað upp Landsveitina en lentum í þvílíku úrhelli, þrumum og eldingum svo við snérum við, fórum að Flúðum og þaðan niður á Eyrarbakka. Krúttulegt tjaldstæðið þar. Síðan aftur brunað í sveitina nema Gestur sem fór að vinna í Reykjavík. Næsta ferðalag var með Capteinsgenginu um mela og móa, fjörur og fjöll. Ég tók kellingarhátt á þetta og fór bara 5 af 8 dögum. 5 góðir dagar. Fallegar fjörurnar og þá sérstaklega við gullinn sandur við Gaul. Restina af fríinu dvöldum við í Nátthaga, fórum í afleggjarapartý og síðan í stórglæsilegt 50 ára afmæli hjá Steinku að Sveitasetri hennar í landi Skiphyls. Gott frí en eins og venjulega var ekki hægt að gera allt sem var á dagskránni :) sem þá bíður betri tíma.