föstudagur, júlí 20, 2007

sumarfrí

stutt stopp heima, áður en við höldum í sveitina seinnipartinn í dag. Við komum heim í gærkvöldi eftir 2ja daga þvæling um Suðurland. Ágætistúr það, fórum að Gullfossi og Geysi eins og sönnum túristum sæmir, gistum í Oddsholti og fórum svo á Selfoss. Þar fóru karlarnir í "dótabúð" þ.e. að skoða vinnuvélar en við betri helmingarnir fórum í bútasaumsbúð, handavinnubúð og í antikbúð, allt saman afskaplega bráðnauðsynlegt. Fórum svo á Stokkseyri, skoðuðum Veiðisafnið, keyrðum í gegnum Eyrarbakka og Þorlákshöfn. Eftir að vera búin að fara í gegnum þessi litlu sveitafélög nokkrum sinnum þá myndi ég frekar vilja búa á Eyrarbakka eða Stokkseyri, frekar en í Þorlákshöfn. Fórum svo í gegnum Krísuvíkursvæðið, stoppuðum við Seltún og skoðuðum hverasvæðið þar, svo áfram meðfram Kleifarvatni og þaðan heim. Næsta plan er að fara í sveitina í kvöld, huga að gróðri á lóðinni okkar og fara síðan aftur í ferðalag þegar pa er búin að laga húsbílinn. Verðum að vera komin heim á fimmtudag vegna læknastúss á karlinum.
Unnur Lilja virðist vera búin að jafna sig á veikindum síðustu helgar. Við fórum með hana aftur til læknis vegna útbrota og niðurgangs, héldum að hún væri með lyfjaofnæmi. Hún fékk pensilinskammt vegna eyrnabólgu á sunnudaginn, þegar við fórum svo aftur með hana kom í ljós að hún var með mislingabróður og hafði ekki fengið eyrnabólgu, sem útskýrir vel þennan rosalega hita sem hún fékk aðfaranótt sunnudags og var með á sunnudaginn líka. Hún er ljónkát eins og hún er venjulega, stendur upp við alla mögulega og ómögulega hluti, skoppar um á rassinum og skoðar heiminn af mikilli forvitini. Gaman að fylgjast með henni brasa.

Efnisorð:

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home