að hika er´ð sama og að tapa
Fjórða hámóbarnið hefur litið dagsins ljós, innilega til hamingju með dömuna Kristín og Haukur. Skemmtilegt að þessi fjögur börn eru öll fædd sama árið :) geri aðrir hámó/saumó klúbbar betur!!! Hlakka til að sjá þessa ungu dömu þegar hún kemur á suðvesturhornið eftir áramótin.
Nú er jólahátíðin vel á veg komin og seinni hálfleikur að hefjast með áramótagleði ýmiskonar. Þessi jól hafa verið afskaplega ánægjuleg, með hóflegu áti og drykk. Held sveimér þá að ég hafi aldrei verið eins hófsöm/skynsöm þegar kemur að áti, ja eða ætti ég kannski bara að vera hreinskilin og þakka Unni Lilju hér og nú fyrir að veita móður sinni aðhald. Hún er nefnilega vandlát á hvað ég borða, strax farin að stýra og stjórna, reyndar byrjaði hún strax á því í móðurkviði með því að neita að fæðast fyrr en hún var rekin afstað!!!!! Annars er þessi elska farin að sofa mun betur, ég eiginlega þori ekki að segja þetta upphátt og hvað þá að skrifa þetta á veraldarvefinn!!!! þannig að ég sagði þetta ekki og skrifaði þetta ekki. En alla vega þá er hún búin að sofa eins og engill síðustu ca 5 nætur og við foreldrarnir kunnum okkur ekki læti. Hún bara rétt rumskar undir morgun og fær sér að drekka og heldur síðan áfram að sofa, ó mæ god hvað það er ljúft mar. Eins og margir vita er móðir hennar afskaplega mikil svefnpurka og veit fátt betra í lífinu en að sofa :)
Við Gestur fórum í afskaplega skemmtilega fjórhjólaferð 27. des upp í Skorradal með eskimóunum. Þvílíka snilldin sem ferðin var mar, við erum ennþá í sæluvímu. Við gáfum vinum okkar þeim Ásgeir og Anítu fjórhjólaferð í brúðkaupsgjöf þegar þau giftu sig í sumar og auðvitað fórum við nú með ásamt fleirum. Halli Hansen var fararstjóri af sinni alkunnu snilld. Við keyrðum hringin í kringum Skorradalsvatn, lentum í þvílíkri drullu, klaka, vatni, og já bara allskonar. Sumstaðar var slóðin undir vatni og annarsstaðar hafði honum skolað í burtu í rigningum síðustu vikna. Sami snillingurinn festi sig tvisvar og í fyrra skiptið þurftu 5 hetjur að vinda sér af hjólunum og ofan í drullufenið til að lyfta hjólinu þannig að það næði festu og gæti komist af stað. Á einhvern snilldarmáta hafði hjólstjóranum tekist að láta það festast á "kviðnum" á ís sem var undir drullulagi þannig að dekkin náðu ekki niður. Ekki var ég ein af þessum hetjum :) ég hélt mig nú bara beint fyrir aftan fararstjórann og fékk þar með prýðisleiðbeiningar um hvar væri best að fara og það sannaðist að hika er það sama og tapa. Því í eitt skipti hikaði ég og þá nánast festi ég mig en þar sem ég er svo hæfileikaríkur fjórhjólakappi þá slapp þetta allt sama og ég brunaði yfir drulluna :) :)
En já ég mæli svo sannarlega með . Ég á ennþá eftir að fara í ferðina sem Gestur gaf mér í afmælisgjöf í vor, stefni á massakvennaferð þegar það fer að vora aftur. Eru einhverjir sem hafa áhuga á að koma með???
En já ætli það sé ekki best að sýna skynsemi og smella sér í að fara að sofa, kl orðin hálf tvö að nóttu og það styttst frekar heldur en lengist í að Unnur vakni til að fá sér að drekka :) Að hætti montina foreldra ætla ég að smella inn mynd af henni í jólakjólnum sínum.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home